Þetta hefur Fréttablaðið eftir Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands, um þá atburðarás sem átti sér stað í fyrrinótt, þegar fimmtán hælisleitendur voru fluttir af landi brott í skjóli myrkurs, eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglu á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars handtökur.
Agnes segist hafa talið sjálfri sér trú um að lög landsins byggðu á kristnum gildum og umræddar aðgerðir væru ekki í þeirra anda.
„Ég bara botna ekki því að bjóða fólki, sem hefur verið hér í stuttan eða langan tíma og er bara að leita hér skjóls og friðar í sitt hjarta, að vera tekið úr landi. Og ég vil ekki að þjóðfélagið sé byggt upp af svona hörku. Miskunn og mildi eru lykilorð,“ segir biskup.
Nefnir hún sérstaklega nemendur við Fjölbrautaskólann í Ármúla, sem voru handteknar fyrir utan skólann.
Agnes segir lítinn vanda að breyta lögunum en stjórnmálamenn hafa varið aðgerðirnar með því að vísa til eftirfylgni við lög og reglur.
„Ég hef ekkert meira um þetta að segja, þessu símtali er lokið,“ sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra við Fréttablaðið í gær, eftir að hafa staðhæft að lögregla hefði einungis verið að framfylgja skyldum sínum þegar fólkið var handtekið.