Meistararnir töpuðu ó­vænt granna­slagnum við Rayo Val­le­ca­no

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Real Madríd mátti þola óvænt tap í kvöld.
Real Madríd mátti þola óvænt tap í kvöld. Angel Martinez/Getty Images

Real Madríd tapaði óvænt fyrir Rayo Vallecano í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta, í kvöld. Lokatölur á Campo de Futbol de Vallecas, heimavelli Vallecano, voru 3-2 heimamönnum í vil.

Leikurinn var einkar fjörugur en ásamt fimm mörkum þá fór gula spjaldið á loft átta sinnum og rauða spjaldið einu sinni. Einnig voru tvær vítaspyrnur dæmdar. Veislan hófst strax á fimmtu mínútu þegar Santi Comesana kom heimaliðinu yfir.

Rayo var þó ekki lengi í paradís eða aðeins um rúman hálftíma. Gestirnir fengu vítaspyrnu sem Luka Modrić sendi í netið af sinni alkunnu snilld. Til að bæta gráu ofan á svart þá kom Éder Militão meisturum Real yfir fjórum mínútum síðar með skalla eftir hornspyrnu Marco Asensio.

Við þetta virtust heimamenn tvíeflast en Álvaro García Rivera var réttur maður á réttum stað í teig Real og jafnaði metin í 2-2 áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Eftir um klukkustundarleik sauð allt upp úr. Modrić fékk gult spjald fyrir óíþróttamannslega framkomu á meðan Andoni Iraola, þjálfari heimaliðsins, var sendur í sturtu fyrir hegðun sína á hliðarlínunni.

Sá hlær best sem síðast hlær en aðeins nokkrum mínútum síðar fékk heimaliðið vítaspyrnu þegar hendi var dæmd Dani Carvajal. Á punktinn steig Óscar Trejo og skoraði af öryggi. Staðan orðin 3-2 og reyndust það lokatölur þó Real hafi sótt án afláts og tíu mínútum hafi verið bætt við leikinn.

Tapið þýðir að Real náði toppsætinu ekki af Barcelona en meistararnir eru með 32 stig í 2. sæti eftir 13 leiki á meðan Börsungar eru með 34 stig. Rayo Vallecano er óvænt í 8. sæti deildarinnar með 21 stig eftir sigur kvöldsins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira