Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mílu. Þar segir að Erik hafi yfir þrjátíu ára alþjóðlega reynslu í fjarskiptum, þar á meðal hjá alþjóðlegum framleiðendum fjarskiptabúnaðar (OEM) og frumkvöðlafyrirtækjum. Áður gegndi Erik stöðu framkvæmdastjóra stafrænnar þróunar Símans, sem er fyrrum móðurfélag Mílu. Hann hóf á stínum störf hjá Símanum sem framkvæmdastjóri tæknisviðs árið 2013.
Jón Ríkharð Kristjánsson, núverandi framkvæmdastjóri Mílu, mun setjast í stól stjórnarformanns Mílu og mun því áfram taka þátt í uppbyggingu félagsins.
Í tilkynningunni segir að með ráðstöfuninni styrkir Ardian Mílu til að ná markmiðum sínum um að verða að fullu sjálfstætt og leiðandi fjarskiptainnviðafélag á Íslandi. Áherslur félagsins verði áfram á að flýta uppbyggingu á 5G um allt land og á lagningu ljósleiðara til íslenskra heimila.
„Jón Ríkharð mun taka við sem stjórnarformaður Mílu. Aðrir í stjórn eru Marion Calcine (fjárfestingastjóri Ardian Infrastructure), Daniel von der Schulenburg (forstöðumaður Ardian Infrastructure Þýskalandi, Benelux og Norður-Evrópu), Oscar Cicchetti (rekstrarfélagi Ardian Infrastructure), Pauline Thomson (forstöðumaður stafrænnar nýsköpunar hjá Ardian Infrastructure), og Birna Ósk Einarsdóttir (Framkvæmdastjóri markaðssviðs hjá APM Terminals).
Ardian Infrastructure Fund V gekk frá kaupum á Mílu hf. af Símanum hf. þann 30. september 2022, ásamt Summu rekstarfélagi í samstarfi við íslenska lífeyrissjóði sem fara með 10% hlut,“ segir í tilkynningunni.