Það brá mörgum þegar þeir leystu orðarugl Morgunblaðsins í gær þegar orðið „hópnauðgun“ var eitt af orðunum sem átti að finna í stafasúpunni. Vakin var athygli á þessu á samfélagsmiðlinum Twitter.
Orðarugl Morgunblaðsins býður upp á orðið hópnauðgun . Afsakið meðan ég æli. pic.twitter.com/NrF8jqwxrR
— Anna Guðjónsdóttir (@annagaua) November 21, 2022
Í Morgunblaðinu í dag birtist athugasemd þar sem beðist var afsökunar á því að orðið hafi verið hluti af orðaruglinu. Þar var útskýrt að orðin séu valin af tölvu og fyrir mistök hafi það ekki verið fjarlægt fyrir birtingu.
„Í gær urðu þau mistök í gátunni Orðarugli að óviðeigandi orð var meðal lausnarorða. Orðin eru valin af handahófi af tölvu og fyrir mistök var þetta ekki fjarlægt áður en gátan birtist. Nú hefur þetta orð og önnur sambærileg verið fjarlægð úr orðasafninu. Beðist er velvirðingar á mistökunum,“ segir í athugasemdinni.
