Íran uppskar í blálokin gegn tíu Walesverjum

Sindri Sverrisson skrifar
Rouzbeh Cheshmi og Hossein Hosseini fagna og hafa eflaust fært þjóð sinni kærkomna gleði á afar erfiðum tímum.
Rouzbeh Cheshmi og Hossein Hosseini fagna og hafa eflaust fært þjóð sinni kærkomna gleði á afar erfiðum tímum. Getty/Alex Livesey

Íran á fína möguleika á að komast í 16-liða úrslit á HM karla í fótbolta eftir að hafa skorað tvö mörk seint í uppbótartíma og unnið Wales, 2-0, í B-riðli.

Íranir léku manni fleiri síðustu mínútur leiksins eftir að Wayne Hennessey fór í glæfralegt úthlaup og keyrði niður Mehdi Taremi sem náði að vera á undan markverðinum í boltann.

Tíminn virtist þó vera að renna út en Rouzbeh Cheshmi náði að koma Íran yfir þegar átta mínútur voru liðnar af uppbótartíma, með skoti utan teigs eftir skelfilega hreinsun Joe Allen.

Ramin Rezaeian bætti svo við seinna markinu með snoturri vippu eftir skyndisókn, þegar Walesverjar höfðu sent lið sitt fram í veikri von um að jafna.

Wayne Hennessey var rekinn af velli þegar nokkrar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.Getty/Richard Heathcote

Walesverjar þurftu nauðsynlega á sigri að halda eftir jafnteflið við Bandaríkin í fyrsta leik en tókst ekki að skora og þarf nú að vinna England í lokaumferðinni til að eiga hugsanlega möguleika á að komast í 16-liða úrslit. Það skýrist þó betur eftir leik Bandaríkjanna og Englands í kvöld.

Íran er hins vegar komið með þrjú stig og mun mögulega duga jafntefli gegn Bandaríkjunum í lokaumferðinni til að komast í 16-liða úrslitin.

Segja má að sigur Írans hafi verið verðskuldaður. Kieffer Moore fékk reyndar gott færi í fyrri hálfleik til að koma Wales yfir en annars sköpuðu Íranir sér betri færi. Snemma í seinni hálfleik áttu þeir tvö góð skot í stöng og út í sömu sókninni, og á eftir fylgdi skalli frá Sardar Azmoun sem Hennessey náði þó að verja.

Wales náði lítið að skapa fram á við en útlit var fyrir markalaust jafntefli þegar Hennessey fékk rauða spjaldið en það náðu Íranir að nýta sér til að fagna afar sætum sigri.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira