Þá voru feðginin á ferðinni að skoða Hwasong-17 eldflaugar ríkisins sem borið geta kjarnorkuvopn. Í fréttum frá Norður-Kóreu er haft eftir Kim að eldflaugarnar séu þær öflugustu í heiminum og væru til marks um vilja Norður-Kóreu til að standa í hárinu á Bandaríkjunum og verða eitt öflugasta kjarnorkuveldi heimsins.
Í frétt Guardian segir að talið sé að Kim eigi allt að þrjú börn. Tvær dætur og einn son. Þá segir þar að opinberun dótturinnar hafi ýtt undir vangaveltur um að Kim sé þegar byrjaður að undirbúa þjóðina fyrir valdatöku fjórðu kynslóðar Kim-ættarinnar og öfugt.
Sjá einnig: Óvæntar fjölskyldumyndir staðfesta tilvist dóttur leiðtoga Norður-Kóreu
Ju Ae er talin vera tólf eða þrettán ára gömul og hefur henni verið lýst í fjölmiðlum sem ástkærri dóttur einræðisherrans. Samkvæmt Yonhap fréttaveitunni þykir dóttir Kim líkjast móður sinni Ri Sol Ju.

Í áðurnefndum fréttum frá Norður-Kóreu er einnig haft eftir Kim að vísindamenn ríkisins hafi náð miklum framförum í þróun kjarnorkuvopna sem hægt sé að koma fyrir í eldflaugum eins og Hwasong-17.
Minnka þarf kjarnorkuvopn til að koma þeim fyrir í eldflaugum og undirbúa kjarnorkuoddana til að þola gífurlegan hita og þrýsting sem fylgir því að koma aftur í gufuhvolfið eftir að hafa verið skotið hátt á loft.
Slík vopn þurfa einnig að geta hitt ætluð skotmörk við þessar aðstæður.
Þó nokkur ár eru síðan Kim sagði vísindamenn sína hafa fullklárað slík kjarnorkuvopn. Sérfræðingar hafa þó ávalt dregið það í efa en sagt að mögulegt sé að Norður-Kórea gæti náð þessum áfanga.