Handbolti

Ekki tapað í átján leikjum í röð gegn Aftureldingu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásbjörn Friðriksson og félagar í FH hafa ekki tapað fyrir Aftureldingu í sex ár.
Ásbjörn Friðriksson og félagar í FH hafa ekki tapað fyrir Aftureldingu í sex ár. vísir/hulda margrét

Fara þarf aftur til 28. september 2016 til að vinna síðasta sigur Aftureldingar á FH. Liðin eigast við í stórleik 13. umferðar Olís-deildar karla í kvöld. Liðin eru jöfn að stigum í 2.-3. sæti deildarinnar.

FH-ingar hafa haft sannkallað hreðjatak á Mosfellingum á undanförnum árum. Afturelding vann FH síðast á Varmá 28. september 2016, 27-26. Birkir Benediktsson skoraði átta mörk fyrir Mosfellinga og Mikk Pinnonen sjö.

Síðan þá hafa FH og Afturelding mæst átján sinnum í deilda- og úrslitakeppni og tölfræðin er Hafnfirðingum hagstæð. Þeir hafa unnið fjórtán leiki og fjórum sinnum hefur orðið jafntefli.

FH vann báða leiki liðanna í Olís-deildinni á síðasta tímabili; 26-31 í Mosfellsbænum og 27-21 í Kaplakrika.

Bæði lið byrjuðu þetta tímabil rólega en hafa verið á góðu skriði að undanförnu. FH vann ekki í fyrstu fjórum leikjum sínum í Olís-deildinni en hefur síðan unnið sex leiki í röð auk eins leiks í Coca Cola bikarnum.

Afturelding fékk bara eitt stig í fyrstu þremur deildarleikjum sínum en hefur síðan þá fengið þrettán stig af fjórtán mögulegum. Þá vann liðið vann bikarleik gegn Þór Ak.

Leikur FH og Aftureldingar hefst klukkan 19:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Fyrir leikinn verður einn dáðasti sonur FH, Geir Hallsteinsson, heiðraður fyrir áratuga langa þjónustu við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×