„Það er náttúrulega bara fyrst og fremst að horfa á alvöru handbolta og fylgja íslensku félagsliði sem er að gera frábæra hluti, bæði heima og í þessari Evrópukeppni. Það er bara spennandi og gaman að horfa á þetta,“ sagði Arnar aðspurður að því hvað væri að draga hann á handboltaleik í Frakklandi.
Valsmenn hafa unnið tvo og tapað einum í fyrstu þrem leikjum sínum í Evrópukeppninni. Arnar segir það gríðarlega stórt fyrir íslenskan handbolta að Valur sé kominn á þennan stað.
„Bæði það að vera að mæta einhverjum öðrum liðum en þeir eru að mæta dags daglega heima gefur okkur mikið og svo að vera í alvöru riðlakeppni þar sem við erum að fá alvöru lið heim til Íslands er að gera ótrúlega mikið og eykur áhugan.“
Þá bjóst Arnar eðlilega við erfiðum leik fyrir Valsmenn gegn sterku frönsku liði.
„Þetta verður erfitt, þeir eru að mæta sterku liði. Þetta franska lið er alveg gríðarlega sterkt og þetta verður erfitt. En Valsliðið er búið að spila frábærlega og sýna frábæra takta í þessari keppni, vinna úti á Spáni og sterkt ungverskt lið heima ásamt því að vera í hörkuleik við Flensburg heima. Það er allt hægt, en þetta verður erfitt,“ sagði Arnar að lokum.
Þegar þetta er ritað er hálfleikur í leik Vals og PAUC og þar er staðan 14-15, Valsmönnum í vil. Liðin eru jöfn að stigum í B-riðli, en sigurliðið í kvöld jafnar Flensburg að stigum á toppi riðilsins.