Samkvæmt frétt á vef Landspítalans starfaði Rosemary sem hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku á Nýja-Sjálandi áður en hún hóf læknanám þar í landi. Hún hefur stundað sérnám í bráðalækningum á Landspítalanum frá árinu 2015.
Í fréttinni segir að bráðamóttaka Landspítalans hafi hlotið formlega viðurkenningu mats- og hæfisnefndar til að veita fullt sérnám í bráðalækningum. Námið tekur alls sex ár en kennslustjóri er Hjalti Már Björnsson. Fer námið fram í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri og byggir á marklýsingu og framvinduskráningarkerfi frá Royal College of Emergency Medicine í Bretlandi.
Rosemary Lea Jones er sem fyrr segir fyrst til að ljúka þessu skipulagða sérnámi í bráðalækningum á Landspítalanum. Hún starfar áfram á deildinni eftir útskriftina auk þess að vera læknir í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.