Lögregla greinir frá handtökunum í morgun og að gögn hafi fundist sem bendi til að liðsmenn hreyfingarinnar hafi haft valdarán í hyggju. Hafi ætlunin verið að ráðast inn í þinghúsið í Berlín, „kollsteypa kerfinu“ og koma sitjandi ríkisstjórn frá.
Fjöldi þýskra fjölmiðla greina frá málinu í morgun, meðal annars Zeit, Spiegel og Bild. Þar segir að 71 árs maður af aðalsætt, Hinrik XIII, hafi verið aðalskipuleggjandinn, en í hópi hinna handteknu er einnig fyrrverandi þingmaður.
Fram kemur að rúmlega þrjú þúsund lögreglumenn hafi tekið þátt í samræmdum aðgerðum og gert húsleit í rúmlega 130 stöðum – heimilum og skrifstofum – í ellefu af sextán löndum Þýskalands snemma í morgun. Þá var einn handtekinn í Austurríki og annar í Ítalíu vegna málsins í morgun.

Fram kemur að það sé embætti ríkissaksóknara og alríkislögreglan sem hafi staðið að aðgerðunum í morgun. Nokkurt magn vopna hefur fundist.
Zeit segir frá því að lögregla hafi beint sjónum sínum að 52 einstaklingum og hafi 25 þeirra verið handteknir í morgun. Reichsbürger er hægriöfgahreyfing sem viðurkennir ekki lögmæti Þýskaland dagsins í dag.
Ennfremur kemur fram í þýskum fjölmiðlum að í hópi hinna handteknu meðal annars aðilar með tengsl við þýska herinn og Birgit Malsack-Winkemann, fyrrverandi þingkona frá Valkosti fyrir Þýskaland (AfD).
Húsleit var meðal annars gerð í Wannsee-hverfinu í Berlín og í fjallakofa í Bad Lobenstein. Þá var gerð húsleit á bílaverkstæði í Saxlandi og á fleiri stöðum í Bæjaralandi, Hessen, Neðra-Saxlandi og víðar.