Erlent

Sjálf­krafa fyrning or­lofs ó­lög­mæt sam­kvæmt Evrópu­dóm­stól

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Ákvörðun Evrópuréttar styður trú ASÍ.
Ákvörðun Evrópuréttar styður trú ASÍ. Getty/Spyros Arsenis / EyeEm

Evrópudómstóllinn hefur skorið úr um lögmæti sjálfkrafa fyrningar á áunnu orlofi. Niðurstaða dómstólsins var sú að fyrrnefnd fyrning sé ólögmæt og staðfestir það kröfur Alþýðusambandsins vegna innlendra samningsákvæða sem ríma ekki við þetta.

Þessu greinir Alþýðusamband Íslands frá á vef sínum og segir jafnframt borið hafa á því að hérlendir atvinnurekendur telji áunnið orlof fyrnast sjálfkrafa, sé það ekki tekið. Meðal atvinnurekenda sem hafi haldið þessu til streitu hérlendis sé til dæmis hið opinbera.

ASÍ segir niðurstöðu Evrópudómstólsins nú staðfesta skyldu atvinnurekenda til þess að sjá til þess að starfsfólk taki sér það orlof sem það hefur unnið sér inn fyrir. Atvinnurekendurnir geti sömuleiðis ekki tekið ónýtta orlofsdaga eða -fé frá starfsfólki.

Þá greinir sambandið frá því að samningsákvæði um fyrningu orlofs hafi verið sett inn í síðustu kjarasamninga við ríki, sveitarfélög og Reykjavíkurborg. Samningsákvæðið fjallar um niðurfellingu orlofsdaga að ákveðnum tíma liðnum. Ákvæðið má sjá hér að neðan.

„Hafi starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof þann 1. maí 2020, allt að 60 dögum, ekki nýtt þá daga fyrir 30. apríl 2023, falla þeir dagar niður sem eftir standa.“

Segist ASÍ hafa beitt sér fyrir því að ákvæði þetta væri lagfært og muni gera það á ný, nú þegar niðurstaða Evrópudómstóls liggur fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×