Handbolti

Þriggja marka sigur Vals dugði ekki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Val í dag.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Val í dag.

Valur vann þriggja marka sigur ytra á spænska liðinu Elche í síðari leik liðanna í Evrópubikar kvenna í handbolta í dag, lokatölur 18-21. Það dugði þó ekki til þar sem Valur tapaði fyrri leik liðanna með fimm marka mun.

Leikið var tvo daga í röð á Spáni en fyrri leiknum lauk með fimm marka sigri Elche, 30-25, og Valskonur því í brekku fyrir leik dagsins. Eftir að skora fyrsta markið skoraði Elche þrjú mörk í röð og komst 3-1 yfir.

Valur svaraði því með sínu eigin fjögurra marka áhlaupi og létu Valsliðið þá forystu aldrei af hendi. Raunar fór það svo að liðið frá Hlíðarenda bætti við forystuna hægt og þétt. Þegar flautað var til hálfleiks var Valur sex mörkum yfir á leiðinni áfram.

Sex marka forysta varð að sjö marka forystu í upphafi síðari hálfleiks en þá vaknaði Elche af værum blundi og skoraði sex mörk í röð. Þó Valur hafi svarað og verið 2-3 þrem mörkum yfir þegar komið var að lokakafla leiksins þá var það ekki nóg, lokatölur 18-21 og Valur úr leik.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í liði Vals með fimm mörk. Þar á eftir komu Thea Imani Sturludóttir og Sigríður Hauksdóttir með fjögur hvor.


Tengdar fréttir

„Erum á lífi fyrir leikinn á morgun“

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals var ósáttur með varnarleik sinna kvenna þegar topplið Olís deildar kvenna í handbolta tapaði með fimm mörkum ytra gegn Elche í fyrri leik liðanna í Evrópubikar kvenna. Síðari leikur liðanna fer fram á Spáni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×