Promes var á meðal bestu leikmanna hollensku deildarinnar með Ajax þegar hann var tekinn fastur í desember 2020 grunaður um að hafa stungið frænda sinn nokkrum mánuðum áður. Hann losnaði úr varðhaldi og brást við með því að fá í gegn félagsskipti til Spartak Moskvu í Rússlandi í febrúar 2021.
Hann hafði áður leikið með rússneska liðinu frá 2014 til 2018 og félagið fagnaði tækifærinu til að endurheimta Promes. Hann fær því eiginlegt hæli í Rússlandi á meðan kæran hangir enn yfir honum í heimalandinu.
Promes hefur ávallt neitað sök en hefur ekki snúið aftur til heimalandsins frá því að kæra fyrir tilraun til manndráps var gefin út í nóvember í fyrra. Rússneskir fjölmiðlar greina nú frá því að hann hafi sótt um rússneskan ríkisborgararétt til að forðast framsal, en Rússar framselja að jafnaði ekki eigin ríkisborgara.
Spartak Moskva stendur með Promes í málinu og herma fregnir frá Rússlandi að félagið hafi aðstoðað hann við að sækja um vegabréf. Hann hefur skorað 23 mörk í 49 deildarleikjum frá því að hann sneri aftur til félagsins.
Promes spilaði 50 landsleiki fyrir hollenska landsliðið en knattspyrnusamband landsins gaf út í nóvember í fyrra að hann yrði ekki valinn á meðan hann væri með ákæru á bakinu.