Jólamolar Vísis munu birtast reglulega fram að jólum. Þar fáum við að kynnast þjóðþekktum einstaklingum í nýju ljósi og komast að því hvað það er sem kemur þeim í jólagírinn. Jólamolunum er ekki síður ætlað að koma lesendum Vísis í hið eina sanna hátíðarskap.
Hvort myndirðu skilgreina þig sem Elf eða The Grinch?
„Ég er pottþétt skilgreind sem Grinch, mér finnst hann skemmtilegri.“
Hver er þín uppáhalds jólaminning?
„Var þegar ég var 8 ára gömul og bjó í afskekktri sveit, gat ekki beðið eftir aðfangadegi, fór niður í pakkaherbergið með kerti og opnaði alla pakkana til mín og var svo sæl og glöð yfir þessu öllu saman og núna veit fjölskyldan þetta.“
Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Það er bréf frá dóttur minni sem hún gaf mér þegar hún átti ekki krónu, hún meira að segja þurfti að ræna rammanum frá móður sinni, þetta er líklega eina jólagjöfin sem ég á ennþá.“
Hver er versta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Bússur, samanber léleg stígvél, fyrsta jólagjöfin frá kærastanum, ég bað hann vinsamlegast um að gefa mér aldrei aftur neitt. Hann stóð við það í 26 ár.“
Hver er uppáhalds jólahefðin þín?
„Að allir séu saman, búnir að fara í bað og uppáklæddir og knúsast þegar bjöllurnar hringja inn jólin.“
Hvert er þitt uppáhalds jólalag?
„Baggalúts jólalög eru mitt uppáhald.“
Hver er þín uppáhalds jólamynd?
„National Lapoon´s Christmas Vacation.“
Hvað borðar þú á aðfangadag?
„Því miður borða ég kalkún, því allir vilja hafa hann, en það bætir bragðið að hafa kalkúninn smjörsprautaðan úr Hagkaup. Helst myndi ég vilja hafa London lamb því það minnir mig svo á gömlu góðu jólin.“
Hvað óskar þú þér í jólagjöf í ár?
„Friðar og að öllum börnum líði vel.“
Hvað er það sem hringir inn jólin fyrir þér?
„Það hringir svo margt inn jólin hjá mér, það eru jólaljósin, það eru jólabjöllurnar, það eru jólatónlistin og jólalyktin af greni. Svo er það samheldnin, fólk verður mýkra og betra á þessum tíma fyrir mér. Og Sörurnar hennar Jóhönnu minnar, sykurlausar en sætar.“
Er eitthvað skemmtilegt á döfinni hjá þér núna fyrir jólin?
„Að setja jól í hverja mínútu sem að almættið færir mér.“