Þetta kemur fram í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands. Flogið verður á föstudögskvöldum til Akureyrar og svo strax til baka til Zürich í næturflugi. Edelweiss hefur hingað til flogið til Keflavíkur og hefur í vetur boðið á vetrarflug til Íslands frá Sviss.
Í tilkynningunni segir að mögulegt verði að bóka sér flug frá báðum flugvöllum í sömu bókun, þannig að komið sé til Akureyrar og farið heim frá Keflavík eða öfugt.
Auk þess býðst Íslendingum sá möguleiki að fljúga beint til Sviss frá Akureyri. Þetta fyrsta sumar verða ferðir í boði á sjö vikna tímabili, frá 7. júlí til 18. ágúst. Félagið stefnir að því að lengja tímabilið árið 2024 í fjóra mánuði, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Félagið flýgur með farþega til og frá Akureyrarflugvelli næsta sumar í Airbus A320 þotu sem tekur allt að 174 farþega í sæti.
„Ísland er einn af þeim áfangastöðum sem eru hvað vinsælastir yfir sumarið hjá Svisslendingum. Við höfum boðið upp á áætlunarflug til Keflavíkur með góðum árangri síðustu tvö ár og sjáum fjölda farþega skoða allt landið yfir sumartímann, og þeir sýna náttúru Norðurlands sérstakan áhuga. Með því að bjóða upp á beint flug til Norðurlands vonumst við til þess að geta boðið ferðalöngum frá Sviss upp á enn auðveldari leið til að komast á Norðurland,“ er haft eftir forsvarsmönnum Edelweiss í tilkynningunni.
Markvisst hefur verið unnið að því að markaðssetja Akureyrarflugvöll sem millilandaflugvöll undanfarin ár. Þetta hefur skilað sér í auknu millilandaflugi um flugvöllinn síðustu árin. Norðlenska flugfélagið Niceair gerir út frá Akureyrarflugvelli, auk þess sem að næsta sumar mun þýska flugfélagið Condor bjóða upp á flug á milli Þýskalands og Akureyrar.