Mikið hefur snjóað í Færeyjum síðustu daga en í gær breyttist veðurfarið á skömmum tíma og tók að hlýna skart. Við það flæddu lækir yfir bakka sína og skriður tóku að falla. Enginn hefur slasast í ósköpunum en ljóst er að skemmdir eru á nokkrum húsum og hefur bæjarstjórnin hvatt alla í efri byggðum bæjarins til að forða sér.
Fjöldahjálparstöðvar hafa verið opnaðar í Badmintonhöll bæjarins sem og í KÍ-höllinni, að því er segir í frétt Kringvarpsins um málið.
Lenti undir skriðunni
Kringvarpið ræddi við Eyðun Nolsøe, íbúa Klakksvíkur sem varð undir einni skriðunni í gær. Hann var utandyra að grafa út bíl sem hafði fest í annarri skriðu þegar hann fékk skriðu í síðuna.
„Það munaði ótrúlega litlu að ekki hafi farið verr. Skriðan kom og skömmu seinna lá ég í garðinum hjá nágrannanum. Bílinn, sem ég hafði reynt að grafa lausan endaði áttatíu metra í burtu,“ er haft eftir honum.
Viðtal við Eyðun og svipmyndir frá Klakksvík má sjá í fréttinni hér að neðan: