Sobhraj, sem hlaut viðurnefnið „höggormurinn“ fyrir hæfileika sinn til að flýja úr fangavist og ginna ungar konur, var umfjöllunarefni sjónvarpsþáttanna The Serpent sem sýndir voru á BBC og Netflix.
Þar var fjallað um morð Sobhraj á ungum ferðalöngum en hann er talinn hafa framið í kringum tuttugu morð á árunum 1972 til 1982, þar sem hann byrlaði fyrir fórnarlömbum sínum, beitti þau ofbeldi og kyrkti.
Eftir að hafa dvalið í tuttugu ár í fangelsi á Indlandi fyrir að eitra fyrir frönskum ferðamönnum var Sobhraj handsamaður í Nepal fyrir morðin á ferðalöngunum Connie Jo Bronzich frá Bandaríkjunum og Laurent Carriere frá Kanada.
Sobhraj var dæmdur í ævilangt fangelsi en dómstóll komst að þeirri niðurstöðu í vikunni að sleppa Sobhraj vegna aldurs, bágrar heilsu og góðrar hegðunar.
Hann er hins vegar sagður vera grunaður um fimm morð í Taílandi, sem hann hefur aldrei svarað til saka fyrir.