Það var margt um manninn á stuðnings- og blaðamannakvöldi FH-inga í Kaplakrika í kvöld. Ástæðan fyrir mannmergðinni var einföld: Aron Pálmarsson, einn besti handboltamaður heims undanfarin áratug, var á heimleið.
Eins og gefur að skilja gerðu FH-ingar sem mest úr kvöldinu og úr varð hin glæsilegasta móttaka. Það ætlaði svo allt að verða vitlaust þegar Aron loksins gekk inn í salinn og mátti sjá að móttökurnar hreyfðu við leikmanninum.
Eftir að fagnaðarlátunum lægði settist Aron niður og svaraði nokkrum spurningum áður en samningurinn var svo loks undirritaður, en herlegheitin má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.