Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá mynd af borgarstjóra Þórshafnar og formanni byggingarnefndar taka fyrstu skóflustunguna þann 22. desember síðastliðinn. Höllin rís í útjaðri höfuðstaðarins, nánar tiltekið ofan bæjarins Hoyvík, sem núna telst úthverfi Þórshafnar. Føroya Arena, eins og hún er kölluð, á að vera tilbúin árið 2025.

Fyrirmyndina sóttu Færeyingar til nýrrar íþróttahallar í bænum Volda í Noregi. Þeir fengu sama norska arkitektinn til að teikna samskonar byggingu og staðfæra hana að færeyskum þörfum.
Henni er ætlað að rúma 2.700 áhorfendur á íþróttakappleikjum og 3.600 tónleikagesti í sætum en allt að 4.600 standandi gesti. Að grunnfleti verður hún 4.600 fermetrar að stærð en gólfrýmið verður alls um 8.400 fermetrar.

Áhersla er lögð á að hún rúmi sem flestar íþróttagreinar sem alhliða íþróttamiðstöð og verði opin almenningi til æfinga og keppni frá morgni til kvölds. Jafnframt verði hún nýtt sem tónlistar-, sýninga- og ráðstefnuhöll.
Heildarkostnaður við bygginguna er áætlaður um fimm milljarðar íslenskra króna og mun Þórshafnarbær greiða 55 prósent kostnaðar. Það sem upp á vantar mun koma frá ýmsum aðilum, þar á meðal danska ríkinu, A.P. Möller-sjóðnum og einkaaðilum.

Þjóðarhöllin verður rekin sem sjálfseignarstofnun og fær sveitarfélagið tvo fulltrúa í fimm manna stjórn en hinir þrír koma frá íþróttasambandi Færeyja, samtökum atvinnulífsins og ferðaþjónustunni.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá færeyskt kynningarmyndband af Føroya Arena: