Fótbolti

Var kallaður svikari og rekinn í beinni: „Þetta er týpískur Mourinho“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho og Rick Karsdorp áður en þeim sinnaðist.
José Mourinho og Rick Karsdorp áður en þeim sinnaðist. getty/Alessandro Sabattini

Lögmaður Ricks Karsdorp, leikmanns Roma, gagnrýndi José Mourinho fyrir meðferð hans á leikmanninum.

Eftir 1-1 jafntefli Roma við Sassuolo í ítölsku úrvalsdeildinni í síðasta mánuði kallaði Mourinho einn leikmann sinn svikara og rak hann nánast í beinni.

„Við erum með svikara í liðinu sem sveik alla aðra. Það er synd,“ sagði Mourinho hundfúll eftir leikinn gegn Sassuolo. „Heilt yfir er ég sáttur við liðið en þetta er stakur leikmaður sem ég er að tala um. Í dag notaði ég sextán leikmenn. Ég var ánægður með fimmtán þeirra.“

Þótt Mourinho hafi ekki sagt hver svikarinn væri greindu ítalskir fjölmiðlar frá því að hann hefði beint spjótum sínum af Karsdorp sem honum fannst verjast illa í jöfnunarmarki Sassuolo. Karsdorp hefur ekki spilað fyrir Roma frá leiknum 10. nóvember.

Lögmaður Karsdorp, Salvatore Civale, skaut á Mourinho í viðtali við Calciomercato. „Stuðningsmennirnir tóku ummæli hans bókstaflega og sóttu að Karsdorp á flugvellinum sem og á samfélagsmiðlum. Þegar leikmaðurinn sér 40-50 stuðningsmenn fyrir utan heimili sitt til að hvetja hann til að yfirgefa félagið skiptir ekki máli þótt Mourinho hafi ekki nafngreint hann,“ sagði lögmaðurinn.

„Félagið hefur ekkert gert til að verja hann. Þetta er týpískur Mourinho,“ bætti Civale við.

Roma keypti Karsdorp eftir að hann varð hollenskur meistari með Feyenoord 2017. Hann hefur leikið 121 leik fyrir Roma en afar ólíklegt þykir að þeir verði fleiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×