Molta er jarðvegur úr lífrænum úrgangi, sem er unnin með því að láta örverur melta úrganginn, eða í þessu tilviki líkamsleifar viðkomandi. Þessi ráðstöfun líkamsleifa nýtur vaxandi vinsælda en hún er talin vera öllu umhverfisvænni en greftrun og líkbrennsla.
Líkamsleifarnar eru settar í kistu eða sívalningslaga ílát ásamt lífrænu efni sem styður við vöxt örvera, til að mynda trjákurl og hey. Örverurnar gera sitt í nokkrar vikur, þar til ekkert er eftir nema bein. Ólífrænir hlutir, á borð við gagnráða, eru þá fjarlægðir en moltan sett í gegnum vél sem mylur beinin.
Að því loknu er moltan geymd í nokkrar vikur í viðbót og snúið reglulega, þar til örverurnar hafa einnig unnið á beinflísunum. Eftir tvo til þrjá mánuði fá aðstandendur moltuna afhenta til að ráðstafa að vild, til að mynda í minningargarð.
Sumar trúarstofnanir, til að mynda kaþólska kirkjan, hafa sett sig upp á móti úrræðinu á þeim forsendum að það sé vanvirðing að fara með líkamsleifar fólks eins og hvern annan eldhúsúrgang.
Hér má finna ítarlega umfjöllun um moltugerð úr líkamsleifum.