Logi var hluti af íslenska karlalandsliðinu í handbolta sem vann silfurverðlaun á mótinu. Í þættinum ræðir Logi ræðir sérstaklega ótrúlegan undanúrslitaleik þar sem Ísland vann sex marka sigur gegn ógnarsterku liði Spánverja, 36-30.
„Ég hef aldrei rætt þennan leik djúpt við neinn. Ekki foreldra, vini eða fjölmiðla. Það hefur enginn spurt mig nákvæmlega um leikinn, hvernig mér leið eða hvað var að gerast,“ sagði Logi Geirsson, áður en hann bætti við.
„Þegar ég var að undirbúa mig fyrir þetta í gær þá brást ég í grát. Ég fékk bara vægt taugaáfall, ég grét og grét. Það eru greinilega bara einhverjar tilfinningar, sársauki og allskonar annað sem er enn þá inn í manni sem maður hefur aldrei farið djúpt ofan í. Þetta er ákveðið ferðalag sem ég fer inn í þegar ég rifja þetta allt upp aftur.“
Lagið Elysium eftir Lisu Gerrard og Klaus Badelt var ákveðið þemalag hjá íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum, lag sem allir leikmenn gátu tengt við.
„Allt sem við gerðum var tengt við það sem var verið að segja. Þegar við vorum að fara út á völl og Óli Stef[ánsson] tók okkur í hring og sagði að við værum saman í bát, með okkar sverð og skjöld að fara að berjast. Við erum 300 þúsund að fara að keppa við milljóna þjóðir og við þurfum að vera með bakið saman. Þess vegna var það þetta lag, sem er þemalagið úr kvikmyndinni Gladiator,“ sagði Logi aðspurður af hverju þetta Elysium hafi orðið fyrir valinu.
„Ég fæ gæsahúð við þetta. Ég sé fyrir mér klefann og ég sé fyrir mér strákana. Það voru rosa miklar tilfinningar í gangi og margir að gráta,“ sagði Logi áður en hann réð ekki lengur við tilfinningar sínar og brást í grát. Þáttinn í heild má heyra í spilaranum hér að neðan en þar rifjar Logi Geirsson upp allt það helsta frá Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.