Keflavík kom verulega á óvart síðasta sumar eftir að hafa byrjað tímabilið skelfilega. Liðið endaði í neðri helming Bestu deildar en var án efa besta liðið þar þegar tímabilinu var lokið. Síðan þá hefur liðið hins vegar misst hvern lykilmanninn á fætur öðrum og ljóst að liðið þyrfti liðsstyrk ef það ætlaði að endurtaka leikinn næsta sumar.
„Loksins, loksins“ hefur stuðningsfólk Keflavíkur eflaust hrópað þegar loks barst tilkynning um kvöldmatarleytið að liðið hefði samið við nýjan leikmann. Miðvörðurinn Gunnlaugur Fannar er genginn í raðir Keflavíkur eftir að hafa leikið með Kórdrengjum, Víking frá Reykjavík og Haukum á ferli sínum.
Alls hefur Gunnlaugur Fannar leikið 246 KSÍ-leiki á ferli sínum og skorað í þeim 14 mörk. Samningur hans við Keflavík gildir til tveggja ára.
Keflavík heimsækir nýliða Fylkis þann 10. apríl næstkomandi þegar fyrstu umferð Bestu deildar fer fram.