Magdeburg segir frá því á miðlum sínum í dag að Ómar Ingi hafi farið í aðgerð á hæl í gær og verði af þeim sökum lengi frá keppni.
Ómar Ingi hefur verið að glíma við þessi meiðsli í nokkurn tíma en það voru þó önnur meiðsli sem komu í veg fyrir að hann gæti klárað heimsmeistaramótið með íslenska landsliðinu.
Ómar Ingi mun missa af næstu leikjum íslenska landsliðsins í undankeppni EM og Bennet Wiegert, þjálfari liðsins, býst ekki við því að Ómar spili fleiri leiki á tímabilinu.
Það á hins vegar eftir að koma betur í ljós þegar menn vita meira um hvernig aðgerðin hefur tekist.
Fjarvera Ómars er mikill missir fyrir Þýskalandsmeistara Magdeburgar en hann var kosinn leikmaður ársins í fyrra þegar liðið tryggði sér þýska titilinn.
Nú verður líka nauðsynlegt fyrir varamenn hans í íslenska landsliðinu að stíga fram og taka við meiri ábyrgð við að tryggja íslenska liðinu sæti á næsta EM. Ómar er ekki líklegur til að spila fleiri leiki í þeirri undankeppni.