Íslenski boltinn

Stefnir allt í að Oli­ver spili í grænu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Oliver [til vinstri] í leik með ÍA á Hlíðarenda síðasta sumar.
Oliver [til vinstri] í leik með ÍA á Hlíðarenda síðasta sumar. Vísir/Hulda Margrét

Það virðist nær klappað og klárt að Skagamaðurinn Oliver Stefánsson muni spila fyrir Íslandsmeistara Breiðabliks síðasta sumar. Hann kemur frá sænska liðinu Norrköping en lék með ÍA á láni síðasta sumar.

Frá þessu greina Hjörvar Hafliðason, þáttastjórnandi hlaðvarpsins Dr. Football, sem og Fótbolti.net.  Samkvæmt síðarnefnda aðilanum hafa Oliver og Breiðablik komist að munnlegu samkomulagi en hann á eftir að undirgangast læknisskoðun og skrifa undir samning.

Hinn tvítugi Oliver hefur glímt við erfið meiðsli á undanförnum árum og fór til ÍA á láni í von um að komast í betra leikform. Oliver kom við sögu í 23 leikjum í Bestu deildinni síðasta sumar en tókst ekki að koma í veg fyrir að ÍA féll niður í Lengjudeildina.

Oliver kemur til Breiðabliks á frjálsri sölu eftir að hafa rift samningi sínum við Norrköping. Hann er örvfættur miðvörður, eitthvað sem Blikar hafa ekki í sínum röðum, og hefur leikið 18 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Hann var einkar eftirsóttur en talið er að Víkingur, Valur og KR hafi öll sóst eftir kröftum hans.

Breiðablik hefur titilvörn sína þegar nágrannarnir í HK mæta á Kópavogsvöll þann 10. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×