Greinin ber heitið „This is me: Guðjón Valur Sigurðsson“ en þar rekur hann feril sinn í heild sinni, frá því að hann hóf meistaraflokksferilinn með Gróttu og þar til skórnir fóru á hilluna rúmum tuttugu árum síðar eftir að hafa leikið með liðum á borð við Barcelona, Kiel og PSG. Hann er í dag þjálfari síns fyrrum félags, Gummersbach, og fer einnig stuttlega yfir tíma sinn hingað til þar.
Guðjón var í tvígang á mála hjá þýska stórveldinu Rhein-Neckar Löwen. Í fyrra skiptið lék hann í þrjú ár með félaginu frá árinu 2008 til 2011 og seinna skiptið var hann einnig leikmaður liðsins í þrjú ár frá 2016 til 2019. Í greininni segir Guðjón til að mynda frá því þegar hann gekk í raðir Ljónanna í seinna skiptið, en þá var Nikolaj Jakobsen, núverandi landsliðsþjálfari Danmerkur, þjálfari liðsins.
„Nikolaj Jakobsen hringdi í mig til að athuga hvort ég vildi snúa aftur til Rhein-Neckar Löwen þar sem goðsögn félagsins, Uwe Gensheimer, hafði fært sig yfir til Parísar. Ég skrifaði undir þriggja ára samning, og í þetta skipti var þetta allt öðruvísi,“ segir Guðjón.

„Það er gott að búa á þessu svæði. Klúbburinn er skipulagður af mikilli fagmennsku og með leikmenn eins og Andy Schmid, Andreas Palicka, Kim Ekdahl du Rietz, Alexander Petterson, Mikael Appelgren, Patrick Groetzki, Gedeon Guardiola og Hendrik Pekeler skemmtum við okkur vel og náðum góðum árangri. Við urðum þýskir meistarar árið 2017 og bundum loks enda á bikarbölvunina þegar Löwen vann sinn fyrsta bikarmeistaratitil árið 2018 í tíundu tilraun.“
„Nikolaj var einn af mínum uppáhalds þjálfurum frá upphafi, þrátt fyrir að strax í byrjun lenti okkur saman og við vorum næstum farnir að rífast þar sem hann er maður sem getur gjörsamlega sprungið á hliðarlínunni, sem og utanvallar. Stundum höfðum við virkilegar áhyggjur af því að hann myndi fá hjartaáfall og deyja í miðjum leik. En Nikolaj er maður með hjartað á réttum stað og ótrúlega þekkingu á taktík.“