Handbolti

Eyjakonur völtuðu yfir botnliðið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Eyjakonur unnu öruggan sigur gegn HK í dag.
Eyjakonur unnu öruggan sigur gegn HK í dag. Vísir/Vilhelm

ÍBV vann afar sannfærandi tíu marka sigur er liðið heimsótti botnlið HK í Olís-deild kvenna í handbolta í dag, 17-27.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og þegar fyrri hálfleikur var rétt tæplega hálfnaður var munurinn aðeins eitt mark, staðan 4-5, ÍBV í vil. Eyjakonur skoruðu þá fjögur mörk í röð og náðu upp fimm marka forskoti. HK-ingar skoruðu raunar aðeins tvö mörk það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og staðan var 6-12 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Í síðari hálfleik voru heimakonur í HK aldrei líklegar til að ógna forskoti ÍBV og gestirnir juku forskot sitt jafnt og þétt. Fór það því svo að lokum að ÍBV vann öruggan tíu marka sigur, 17-27.

Marta Wawrzykowska var algjörlega frábær í marki Eyjakvenna og varði 18 af þeim 29 skotum sem hún fékk á sig, en það gerir rúmlega 62 prósent hlutfallsmarkvörslu. Markahæst í liði ÍBV var Sunna Jónsdóttir með átta mörk, en í liði HK voru þær Jóhanna Lind Jónasdóttir og Embla Steindórsdóttir markahæstar með fjögur mörk hvor.

ÍBV situr í öðru sæti Olís-deildarinnar með 28 stig eftir 16 leiki, tveimur stigum á eftir toppliði Vals. HK-ingar sitja hins vegar sem fastast á botninum með aðeins tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×