Mikil eftirvænting hefur ríkt með hver taki við af Laufey Guðjónsdóttur sem hefur gegnt stöðunni undanfarin tuttugu ár eða svo. Laufey kvaddi samstarfsfólk sitt í síðustu viku.
Um valdamikið embætti er að ræða enda gegnir Kvikmyndamiðstöð lykilhlutverki í íslenskum kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði með því að veita fjármagni til framleiðslu íslenskra kvikmynda og sjónvarpsverka, kynna íslenskar kvikmyndir á alþjóðlegum vettvangi og styðja við kvikmyndamenningu á Íslandi með margskonar hætti, eins og segir á síðu miðstöðvarinnar.
Gísli Snær Erlingsson er fyrrverandi skólastjóri London Film School. Hann hefur undanfarna áratugi starfað sem kennari og skólastjóri á erlendum vettvangi, sem slíkur í Japan og svo Singapure.
Hann flutti svo til London og tók við starfi sem yfirkennari hjá London Film School og svo sem skólastjóri síðastliðin sex ár.
Gísla Snæ þekkja margir sem leikstjóra kvikmyndarinnar Benjamín Dúfa en hann kom fyrst fyrir sjónir almennings sem annar umsjónarmaður dægurlagaþáttar, ásamt Ævari Erni Jósepssyni, sem var á dagskrá Ríkisútvarpsins; Poppkorn, þar sem tónlistarmyndbönd voru kynnt.
Eftir því sem Vísir kemst næst þykir það kostur að Gísli Snær hafi verið búsettur erlendis undanfarin 25 árin, því þá er ekki hægt að kenna hann við neina flokkadrætti innan hins íslenska kvikmyndagera.
Gísli mun taka við embætti forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar í apríl næstkomandi en fram að því hefur Sigurrós Hilmarsdóttur, framleiðslustjóra Kvikmyndamiðstöðvar, verið falið að gegna stöðu forstöðumanns.