„Við náðum ekki að hleypa þessu upp í þessa geðveiki sem við viljum og stemningsskotin duttu ekki okkar megin og við náðum ekki að fylgja því með varnarfráköstum. Þess vegna skorum við bara 60 stig. Við þurfum að skora meira og það er bara galdurinn að við megum ekki detta niður á þeirra plan. Við þurfum bara að spila okkar bolta og það var munurinn í dag,“ sagði Ægir.
Sóknaraðgerðir íslenska liðsins voru stærstan hluta leiksins mjög erfiðar og liðið þurfti að hafa gríðarlega fyrir hverju stigi. Ægir segir að það sé einfaldlega afleiðing af því að liðið dettur niður á spænskt plan í leiknum.
„Þetta þurfa að vera snöggar og snaggaralegar sóknir. Ekki það að maður verður auðvitað að hrósa þeim fyrir góðan varnarleik. Þeir eru með B- eða C-liðið sitt, en þeir eru heims- og Evrópumeistarar í körfubolta og hefðin er þeirra megin. En við hefðum þurft að spila hraðari bolta og hafa sneggri og ákveðnari aðgerðir sóknarlega.“
Þrátt fyrir erfiðan sóknarleik gekk varnarleikur Íslands vel upp stærstan hluta leiksins.
„Við ætluðum bara að vera „physical“ og aggressívir. En það var oft á tíðum sem fráköstin fylgdu kannski ekki og mér fannst við vera seinir upp völlinn líka. Mér fannst við ekki vera nógu snöggir að taka fráköstin og hlaupa völlinn til að refsa. En við spiluðum ekkert slæman varnarleik en þetta skildi bara að.“
Þrátt fyrir tapið segist Ægir enn vera ótrúlega spenntur fyrir leik Íslands gegn Georgíu næstkomandi sunnudag, enda verður það hreinn úrslitaleikur um sæti á HM.
„Við erum ekkert smá peppaðir að fara í fulla höll í Georgíu. Við erum bara að spila körfubolta, en að mæta í svona og spila á móti þeim bestu í Evrópu og gefa okkur tækifæri til þess að sigra. Við erum fullir sjálfstrausts og augun hafa verið á þessum leik í langan tíma. Við ætlum að stilla spennustigið, taka mínútu fyrir mínútu, og vinna þennan leik,“ sagði Ægir að lokum.