Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, greindi frá því í hlaðvarpsþættinum Spjallið með Frosta Logasyni í vikunni að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hafi viðrað þá hugmynd að mögulega væri hægt að gera tilraunir með hugvíkkandi efni á fanga í íslenskum fangelsum.
Ráðherrann hefur síðan sagt slík efni geta hjálpað föngum sem glíma við geðræn vandamál, til að mynda eftir afplánun, en ítrekað að það væri ekki á hans forræði að ráðast í slíkar aðgerðir enda væri um að ræða heilbrigðismál. Hann hefur þó rætt þetta til að mynda við Pál Winkel fangelsismálastjóra.
„Við höfum rætt þetta eins og annað og það er einfaldlega þannig að andleg vandamál hafa verið mjög áberandi í fangelsum landsins og við höfum ekkert náð árangri þar frekar en annars staðar í samfélaginu. Það væri bara mjög óábyrgt ef að ráðherra myndi ekki nefna þetta við mig,“ segir Páll.
„Hins vegar þarf að taka fram og undirstrika það mjög vel að svona yrði aldrei gert nema auðvitað með samþykki viðkomandi einstaklings, Vísindasiðanefndar, Landlæknis og allra sem að að þessu koma. Þarna er bara nýjung sem að hugsanlega kemur vel út síðar meir, það er verið að prófa hana og skoða þessa möguleika fyrir þennan hóp einstaklinga eins og aðra í samfélaginu,“ segir hann enn fremur.
Ekki eitthvað sem muni gerast á næstunni
Þingmenn gripu boltann á lofti í vikunni og óskaði til að mynda Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, eftir svörum frá ráðherranum um hvort einhver vinna hafi verið sett af stað. Á þingfundi í kjölfarið var Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, heitt í hamsi og sagðist vona að þetta væri rangt.
Fangelsismálastjóri ítrekar að þetta muni ekki gerast á næstunni og að ekki verði farið fram hjá kerfinu heldur sé aðeins verið að skoða möguleikann.
„Ég er bara mjög ánægður með það að þeir sem stýra þessu landi hafi áhuga á þeim málaflokki sem að við berum ábyrgð á hérna og það er bara gott að hafa eðlilegt aðhald með þessum málum. Þannig ég fagna þessari umræðu og það er þá hægt að afgreiða það eins og við erum að gera núna,“ segir Páll.
Hann segir stöðuna í fangelsum hafa skánað lítillega eftir að geðheilsuteymi kom inn árið 2019 en mjög alvarlegur vandi blasi enn við.
„Það eru einstaklingar á hverjum tíma inni í fangelsi sem eiga ekkert erindi þangað og eiga að vera á sjúkrastofnunum eða í vistunarúrræðum sem að eru ekki til,“ segir Páll.
Þannig jafnvel þó að hugvíkkandi efni séu ekki lausnin þá þarf eitthvað að gera?
„Já svo sannarlega. Bara eins og allir eftirlitsaðilar hafa komist að niðurstöðu um þá er það svo sannarlega aðkallandi vandamál og hefur verið lengi. Við erum að fara illa með fólk sem er veikt,“ segir hann enn fremur.