Hallgrímur Kristinsson frá „Mega Zipline Iceland” var gestur á opnum fundi sjálfstæðismanna í Hveragerði nýlega þar sem hann kynnti starfsemi fyrirtækisins og þá staðreynd að í júní í sumar verður sviflínan úr kömbunum niður í Reykjadal opnuð almenningi. Nú þegar er búið að bóka stóra hópa í línuna og mikill áhugi og spenna fyrir verkefninu hjá erlendum ferðaskrifstofum.
„Já, við eru loksins að fara að opna skemmtilegustu afþreyingu landsins og það er sviflínan, „Mega Zipline”, sem verður langstærsta og skemmtilegasta sviflína landsins og ég vil meina skemmtilegasta afþreying á landinu öllu. Þetta verða tvær kílómetra línur, sem ná úr kömbunum og alla leið niður að Árhólmum við þjónustuhúsið í Reykjadal og þar verður einnig afgreiðslan okkar og þar tökum við á móti fólki,” segir Hallgrímur Kristinsson, framkvæmdastjóri verkefnisins.
Hallgrímur segir að þeir, sem munu þora að fara í ferð munu upplifa stórkostlegt landslag á leiðinni niður.
„Það er alveg magnað að vera á þessu svæði og hafa reykinn stígandi upp úr öllum hlíðum og við vitum öll hvað það eru fallegar gönguleiðir þarna í kring, þannig að það er hægt að gera góðan dag með því að ganga upp í Reykjadal, baða sig, ganga þar upp eða hjóla og koma svo og taka eina bunu í lok dags,” segir Hallgrímur.
Og næsta sumar, sumarið 2024 er ætlunin að opna sleðabraut á sömu slóð og línurnar fáist leyfi til þess.
„Þá ertu komin með risastórt afþreyingarsvæði fyrir alla fjölskylduna í Hveragerði. Bæjarfélagið er frábærlega staðsett fyrir svona starfsemi, bæði fyrir það vera með mjög fallegt sveitarfélag og þá er það líka einstaklega vel staðsett. Bæjarfélagið er aðeins út fyrir borgina en á Suðurlandi þar sem að við vitum að mesta traffíkina af ferðamönnum er, og svo er þetta auðvitað auðvelt fyrir Íslendinga, sem búa á svæðinu,” segir Hallgrímur enn fremur.
