Settur sáttasemjari boðaði fulltrúa Eflingar og SA til fundar í húsakynnum ríkissáttasemjara í Borgartúni í gærkvöldi. Fundur hófst klukkan 20 og gert ráð fyrir að teygst gæti á fundi.
Fundurinn stóð frá klukkan átta til að verða miðnætti án eiginlegrar niðurstöðu en alla vega án þess að samningsaðilar skelltu hurðum, samkvæmt heimildum fréttastofu.
Það var svo um hálf eittleytið í nótt sem fundi var slitið. Sáttasemjari tók ekki ákvörðun um nýjan fundartíma heldur lagðist hann undir feld að nýju. Óvissa er um framhaldið en viðræðuraðilar settir í fjölmiðlabann.
„Aurasálin“
Stefán Ólafsson er fulltrúi í samninganefnd Eflingar. Hann hefur verið mjög virkur í baráttu Eflingar og ritað margan pistilinn, meðal annars hér á Vísi. Hann tjáir sig um fund gærdagsins á Facebook í stuttum pistli sem hann nefnir „aurasálina“.
„Í gærkvöld varði samninganefnd Eflingar hátt í 5 klst. í bið eftir því hvort samninganefnd atvinnurekenda (SA) myndi leyfa settum sáttasemjara að leggja fram svokallaða miðlunartillögu í deilu Eflingar og SA.
Biðin var árangurslaus,“ segir Stefán.
Á Stefáni er því að skilja að Efling hafi verið fylgjandi miðlunartillögu en Samtak atvinnulífsins ekki.
„Við dagslok var það mér umhugsunarefni, hversu lengi fólk sem hefur milljónir í laun á mánuði getur rætt um eitt þúsund króna launahækkun til verkafólks - og það án árangurs!“
Vísar Stefán þar til þess að meðlimir í samninganefnd Samtaka atvinnulífsins telji laun sín í milljónum en ekki hundruð þúsunda króna.
Þá segir hann að fyrrnefnd „aurasál“ sé vissulega rannsóknarefni fyrir sálfræðinga.
Ósáttur við ráðherra
Sæþór Benjamín Randalsson, sem sömuleiðis á sæti í samninganefnd Eflingar, stjórnarmaður Eflingar og formaður stjórnar vinnudeilusjóðs Eflingar, tjáir sig við þráð pistil Stefáns.
„Algjör sóun á kvöldinu mínu. Samtök atvinnulífsins og Halldór Benjamín vilja hvorki semja né fallast á neinar málamiðlanir. Algjörir fasistar, virkjað með gagnsleysi Katrínar og Guðmundar,“ segir Sæþór og vísar til forsætisráðherra og vinnumarkaðsráðherra.