Íslenski boltinn

Tekur því ekki lengur sem sjálfsögðum hlut að spila fótbolta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hilmar Árni Halldórsson er klár í slaginn á nýjan leik.
Hilmar Árni Halldórsson er klár í slaginn á nýjan leik. vísir/sigurjón

Eftir að hafa misst af öllu síðasta tímabili vegna meiðsla tekur Stjörnumaðurinn Hilmar Árni Halldórsson því að spila fótbolta ekki lengur sem sjálfgefnum hlut.

Hilmar Árni er kominn aftur á ferðina eftir krossbandsslit og skoraði tvö mörk þegar Stjarnan sigraði Njarðvík, 3-1, í Lengjubikarnum um helgina.

„Maður er bara spenntur. Ég er búinn að taka einhverja fjóra leiki. Það er ótrúlega gaman að vera hluti af þessu aftur og það er mikil spenna fyrir komandi tímabili,“ sagði Hilmar Árni í samtali við Svövu Kristínu Gretarsdóttur í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Þetta var erfitt en samt lærdómsríkt. Þetta neyðir þig til að horfa á leikinn með öðrum augum. Eins og ég sagði einhvers staðar þá tekur maður þessu vonandi ekki sem sjálfsögðum hlut.“ 

Þrátt fyrir að vera meiddur var Hilmar Árni þó hluti af Stjörnuliðinu á síðasta tímabili og var jafnan á varamannabekk liðsins.

„Það er öðruvísi að spila ekki leikinn, bæði hvernig maður les leikinn á hliðarlínunni og síðan tilfinningin að vera ekki inni í klefanum en vera hluti af þessu dags daglega. Það er erfitt og á köflum svolítið sárt en það er lærdómur í því. Þess vegna er maður þeim mun glaðari að vera kominn aftur.“

Hilmar Árni er markahæsti leikmaður Stjörnunnar í efstu deild með 59 mörk.vísir/bára

Stjörnunni hefur gengið vel í Lengjubikarnum og Hilmar Árni kveðst fullur tilhlökkunar fyrir næsta tímabili.

„Ég er bjartsýnn. Liðið lítur ágætlega út og við höfum náð ágætis úrslitum. Núna horfir maður á hvernig við tökum næsta skref. Við sýndum á köflum frábæran fótbolta á síðasta tímabili og það er fullt af ungum og skemmtilegum leikmönnum í þessu liði. Núna, korter í mót, er spennandi að sjá hverjir stíga upp,“ sagði Hilmar Árni.

Viðtalið við Hilmar Árna má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×