Búist er við að stríðið í Úkraínu verði eitt helsta álitamálið en einnig aukin áhersla Kínverja á að láta til sín taka á alþjóðavettvangi. Gestgjafarnir vilja hinsvegar leggja áherslu á að hópurinn komist að samkomulagi hvað varðar fátækustu lönd heims þótt ekki verði hægt að leysa deilurnar vegna Úkraínustríðsins.
Narenda Modi forsætisráðherra Indlands hvatti ráðherrana í opnunarávarpi sínu til þess að láta stóru deilumálin ekki eyðileggja möguleikann á því að komast að samkomulagi um aðgerðir til handa fátækustu ríkjum heims, lausnir á loftslagsvandanum og orkuöryggi.
Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands eru báðir mættir á fundinn en þeir hafa ekki hist frá því í júlí. Ekki er þó búist við að þeir Antony Blinken og Sergei Lavrov ræðist við í einrúmi.