Fótbolti

Fékk lóð í höfuðið á æfingu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Melissa Bjånesøy fékk myndarlegan skurð á ennið eins og sjá má.
Melissa Bjånesøy fékk myndarlegan skurð á ennið eins og sjá má. vísir/getty

Fyrirliði Stabæk í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta varð fyrir nokkuð óvenjulegum meiðslum á æfingu liðsins á dögunum.

Stabæk undirbýr sig nú fyrir tímabilið sem framundan er í norsku úrvalsdeildinni á Marbella á Spáni. Athygli hefur vakið að Melissa Bjånesøy, fyrirliði liðsins, æfir með nokkuð veglega höfuðhlíf. 

Hún varð nefnilega fyrir meiðslum í vetur eftir að hún fékk lóð í ennið á æfingu. Sem betur fer fyrir hana var æfingafélagi hennar læknir og gat gert að sárum hennar.

„Hún er mjög flink með nálina svo þetta lítur nokkuð vel út. En það kom smá blóð og ég fékk á hausinn,“ sagði Bjånesøy en sauma þurfti fjögur spor í ennið á henni. Hún er þakklát fyrir að ekki hafi farið verr.

„Þetta fór eins vel og mögulegt var. Lóðið lenti nákvæmlega þar sem ég hef skallað fjölmarga bolta svo þetta er harðgert.“

Búið er að fjarlægja saumana úr Bjånesøy en hún æfir samt með höfuðhlíf til öryggis.

Hin þrítuga Bjånesøy hefur leikið með Stabæk frá 2014. Hún á 21 leik og fjögur mörk með norska landsliðinu á ferilskránni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×