El Salvador hefur hneigst í valdboðsátt eftir að Bukele varð forseti landsins árið 2019. Hann hefur stýrt landinu eftir neyðarlögum í tæpt ár sem hann réttlætir með stríði sínu gegn skipulagðri glæpastarfsemi í landinu. Tugir þúsunda ungra karlamanna hafa verið handteknir á þeim tíma en á grundvelli neyðarlaganna eru grunaðir menn sviptir ýmsum borgararéttindum.
Bukele tilkynnti í september að hann ætlaði að bjóða sig fram til endurkjörs á næsta ári þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins leggi blátt bann við því að forseti sitji lengur en eitt fimm ára kjörtímabil í einu. Mannréttindasamtök og Bandaríkjastjórn eru á meðal þeirra sem hafa fordæmt ákvörðun hans og segja hana sýna að lýðræði fari hnignandi í Mið-Ameríkuríkinu.
Hæstiréttur landsins, sem er skipaður dómurum sem Bukele valdi, komst að þeirri niðurstöðu að það væru mannréttindi hans að bjóða sig fram aftur.
Skoðanakönnun dagblaðsins La Prensa Gráfica bendir til þess að hópur kjósenda sé til í að kjósa Bukele aftur jafnvel þó að þeir telji að stjórnarskráin leyfi honum það ekki. Aðeins þrettán prósent svarenda voru andvíg því að Bukele yrði endurkjörinn en 68 prósent fylgjandi, að því er kemur fram í frétt Reuters.