Þetta segir Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Vinstri grænna, í samtali við Vísi.
Björg Eva segir að skráðir félagar í hreyfingunni séu nú rétt innan við sex þúsund en landsfundur flokksins hefst í Hofi á Akureyri síðar í dag þar sem búist sé við um tvö hundruð manns.
Ekki hægt að gefa afslátt alltaf
Bjartur Steingrímsson, sem var lengi virkur í ungliðastarfi flokksins og hefur verið á lista flokksins í Mosfellsbæ, staðfestir í samtali við fréttastofu að hann hafi tilkynnt félögum sínum í hreyfingunni í morgun að hann hefði sagt skilið við flokkinn. Hann segist þó ekki vilja tjá sig að öðru leyti um málið.
Bjartur er sonur Steingríms J. Sigfússonar, fyrrverandi formanns flokksins, og eiginmaður Unu Hildardóttur, varaþingmanns VG.
Í skilaboðum Bjarts til félaga sinna segir hann um úrsögnina að ekki sé „hægt að gefa afslátt af öllu alltaf“ og vísar þar sérstaklega til útlendingafrumvarpsins. Þá þurfi að breyta um stefnu og kalla „apparatið eitthvað annað, því þetta [sé] ekki lengur vinstri sinnuð stjórnmálahreyfing“.
Varaþingmaður hættur
Daníel E. Arnarsson, varaþingmaður VG og framkvæmdastjóri Samtakanna 78, tilkynnti í gær að hann hafi sagt sig úr flokknum vegna samþykkt útlendingafrumvarpsins.
Sömuleiðis tilkynnti Elva Hrönn Hjartardóttir, fyrrverandi meðlimur stjórnar Vinstri grænna og varaformaður þeirra í Reykjavík, að hún hefði sagt skilið við flokkinn.