Við umræður um ákvörðun Jóns um að ræða við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma um að halda áfram rekstri bálstofu á Alþingi fyrr í þessum mánuði kom fram að ekki kæmi fram í hagsmunaskráningu hans að hann væri eigandi félags flytti inn og seldi líkkistur. Sökuðu þingmenn Pírata hann um hagsmunaárekstur í málinu.
Félagið Mar Textil hafði þó verið á hagsmunaskráningu Jóns árið 2021. Jón sagði að skráningin á því hefði dottið út fyrir mistök einhverra hluta vegna.
Skrifstofa Alþingis staðfestir nú að dálkur um svokallaða tekjumyndandi starfsemi hafi dottið út úr hagsmunaskráningu Jóns þegar hann gerði breytingar á henni í maí 2021. Það er rakið til galla í eldra kerfi sem þá var í notkun. Breytingar sem Jón gerði tengdust ekki Mar Textil heldur stjórnarsetu og hlutafjáreign í öðrum félögum.
Heimildin sagði fyrst frá.
Nýtt kerfi fyrir hagsmunaskráningu var tekið í notkun í haust. Óþekktur galli í því veldur því ennfremur að dómsmálaráðherra hefur ekki getað lagfært hagsmunaskráninguna. Skrifstofa Alþingis segir að unnið sé að því að leysa það vandamál.
Uppfært 11:00 Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að skráning Mar Textil hefði dottið út þegar skrifstofa Alþingis tók í notkun nýtt kerfi fyrir hagsmunaskráninguna árið 2022. Það rétta er að skráningin datt út þegar ráðherra gerði breytingar í eldra kerfi vorið 2021.