Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hóf umræðuna um fjármálaáætlunina á Alþingi í dag. Áætlunin fæli í sér skýr markmið.

„Í fyrsta lagi að styðja við Seðlabankann í því verkefni að tempra verðbólgu. Í öðru lagi að verja árangur síðustu ára við að byggja upp framúrskarandi lífskjör og kaupmátt. Og í þriðja lagi að byggja undir áframhaldandi vöxt samfélagsins til framtíðar,“ sagði Bjarni í upphafi máls.
Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar sagði fjármálaáætlunina hins vegar engan vanda leysa.
„Ég hélt kannski í tíu prósenta verðbólgu. Eftir tólf stýrivaxtahækkanir. Hæstu seðlabankavexti í tólf ár að það kæmi eitthvað afgerandi frá þessari ríkisstjórn,“ sagði Jóhann Páll.
Nú lægi það hins vegar fyrir að ríkisstjórnin ætlaði varla að lyfta litla fingri til að taka á verðbólgunni sem væri að bíta á fólki í dag.

„Öll umfjöllun um tilfærslukerfin í húsnæðismálum er í þátíð hjá hæstvirtum ráðherra. Hann telur bara að þau séu búin að gera svo vel. Að fólkið hafi það svo gott og telur enga þörf á frekari aðgerðum,“ sagði Jóhann Páll.
Fjármálaráðherra sagði ýmislegt hafa verið gert til að auðvelda fólki í leiguhúsnæði til að kaupa sitt eigið húsnæði. Meðal annars með nýtingu séreignarsparnaðar og nú síðast einnig tilgreindu séreignarinnar til íbúðarkaupa.
„Við erum síðan að horfa upp á þá þróun á leigumarkaði að leiguverð hefur ekki haldið í við verðlag frá 2019. Þannig að það hefur orðið raunlækkun þar. Og ef við horfum til síðustu tólf mánaða hafa laun og leiga hækkað næstum jafn mikið. En að öðru leyti heyrist mér að Samfylkingin sé bara gamla góða Samfylkingin. Hærri skattar, meiri útgjöld. Meiri skatta og stærra ríki,” sagði Bjarni Benediktsson.
Í kvöldfréttum var einnig rætt í beinni útsendingu við þingmennina Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur Viðreisn og Björn Leví Gunnarsson frá Pírötum sem einnig tóku þátt í umræðunni í dag. Viðtalið má sjá í sjónvarpsfréttinni í spilaranum með þessari frétt.