Fótbolti

„Fleiri komnir með Kristalssóttina?“

Sindri Sverrisson skrifar
Kristall Máni Ingason í leik með U21-landsliðinu gegn Kýpur í fyrra þar sem hann skoraði tvö mörk.
Kristall Máni Ingason í leik með U21-landsliðinu gegn Kýpur í fyrra þar sem hann skoraði tvö mörk. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Forráðamenn norska knattspyrnufélagsins Rosenborg virðast spenntir fyrir framgöngu Kristals Mána Ingasonar á hans fyrstu heilu leiktíð með liðinu, sem hefst eftir slétta viku.

Rosenborg tekur á móti Viking í fyrstu umferð norsku úrvalsdeildarinnar en hún hefst sama dag og Besta deildin á Íslandi, annan í páskum.

Stuðningsmenn Rosenborgar eru minntir á miðasölu í dag með myndskeiði sem sýnir annað af tveimur mörkum Kristals í síðasta æfingaleiknum fyrir mót, og eftirfarandi spurningu velt upp: „Eru fleiri komnir með Kristalssóttina?“

Kristall Máni skoraði bæði mörkin í 2-1 sigri gegn Kongsvinger á laugardaginn í síðasta æfingaleik áður en alvaran hefst. Hann skoraði tvö mörk í norsku úrvalsdeildinni í fyrra eftir að hafa verið keyptur frá Víkingi á miðri leiktíð, en hann byrjaði þá aðeins tvo deildarleiki og spilaði alls átta.

Ísak Snær Þorvaldsson, sem Rosenborg fékk eftir síðustu leiktíð eftir að hafa keypt hann frá Breiðabliki, var í byrjunarliði Rosenborgar gegn Kongsvinger og hefur því náð sér af meiðslum sem hrjáðu hann í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×