Í myndskeiði á TikTok, sem fengið hefur yfir 10 milljón áhorf, rekur Lacie sögu sína. Greinir hún frá því að hún og unnusti hennar fyrrverandi hafi verið á leiðinni upp að altarinu eftir að hafa verið par í fimm ár.
„Deginum áður en ætluðum að gifta okkur komst minn fyrrverandi að þeirri niðurstöðu að hann elskaði mig ekki lengur og vildi ekki lengur giftast mér. En það var í fínu lagi. Það sem ég gerði var að ég fór í brúðkaupsferðina, sem foreldrar hans höfðu greitt fyrir, og ég tók mömmu mína með mér,“ segir Lacie og bætir við að þær mæðgur hafi átt yndislegar stundir saman á Íslandi.
En hún lét þó ekki þar við sitja. Þegar hún var komin aftur heim til Bandaríkjanna tók hún trúlofunarhringinn og giftingarhringinn sem unnustinn fyrrverandi hafði keypt handa henni, fór með þá til skartgripasala og fékk nánast fulla endurgreiðslu. Í ljós kom að hringarnir höfðu kostað umtalsvert minna en unnustinn hélt fram.
„Það skipti mig samt ekki máli, þetta var bara enn ein lygin sem hann tjáði mér,“ segir hún og bætir við að hún hafi notað peningana til að fara ein í tveggja vikna lúxusfrí til Bandarísku Jómfrúaeyja.
Hamingjusöm í dag
Sagan endar þó ekki hér.
Þegar Lacie kom til baka frá Jómfrúaeyjum náði hún í brúðarkjólinn sem hún hafði ætlað að klæðast, og brenndi hann á báli. Hún festi gjörninginn á filmu og birti á Instagram síðu sinni. Því næst seldi hún húsið sem hún og unnustinn höfðu fest kaup á. Unnustinn fyrrverandi fékk að hennar sögn ekki krónu af söluverðinu, en Lacie tekur fram að hún hafi ein lagt fram útborgun í húsið á sínum tíma.
Lacie hefur fengið mismunandi viðbrögð frá netverjum eftir að hún birti sögu sína. Sumir hafa hrósað henni fyrir að takast á við aðstæðurnar með þessum hætti en aðrir telja viðbrögð hennar öfgafull. Margir telja hana hugrakka og sterka fyrir að taka stjórn á lífi sínu.
„Eins mikið og ég vil að fólk haldi að ég sé „badass“ gella sem kveikti í brúðarkjólnum sínum, þá er staðreyndin sú að ég er það ekki. En ég reyni eins og ég get að draga upp mynd af mér sem er raunsæ og einlæg,“ segir Lacie í færslunni.
Í dag er Lacie komin í nýtt samband og er ástfangin upp fyrir haus. Hún segir nýja kærastann koma fram við hana eins og drottningu.
„Ég ætti í raun að þakka mínum fyrrverandi vegna þess að ég er sigurvegarinn í þessari sögu.“