Mbl.is greindi frá þessu í dag og vísaði í síðasta ársreikning enska knattspyrnufélagsins sem birtur var í síðasta mánuði.
Í ársreikningnum, sem er vegna ársins fram til 30. júní 2022, segir að félagið eigi þátt í samningsdeilu við þriðja aðila. Upphæðirnar sem félagið ætli sér að sækja velti á málaferlum sem séu í gangi en að félagið telji góðar horfur á því að geta sótt 10 milljónir punda í bætur. Sú upphæð nemur í dag um 1,7 milljarði króna.
Everton gerði Gylfa að dýrasta leikmanni í sögu félagsins þegar hann var keyptur frá Swansea sumarið 2017, fyrir 45 milljónir punda.
Hann skrifaði undir samning til fimm ára við félagið en lék ekkert fyrir liðið á lokaári samningsins, á meðan að lögreglan rannsakaði mál Gylfa sem grunaður var um brot gegn einstaklingi undir lögaldri. Án Gylfa hefur Everton verið í bullandi fallbaráttu síðustu tvær leiktíðir.
Áður hafði Gylfi verið lykilmaður í liði Everton og spilað 136 leiki fyrir liðið í ensku úrvalsdeildinni, og skorað í þeim 25 mörk.
Á föstudaginn staðfesti lögreglan að Gylfi yrði ekki ákærður heldur væri hann laus allra mála. Þar sem að samningur hans við Everton rann út síðasta sumar er honum nú frjálst að semja við hvaða félag sem er í heiminum, kjósi hann að halda áfram að spila fótbolta.