Borgarleikhúsið leitar því logandi ljósi af hugmyndaríkum og hugrökkum krökkum á aldrinum 10-12 ára, fædd 2011-2013, í hlutverk Fíusólar og bekkjarfélaga hennar. Höfundar leikgerðar eru þær Maríanna Clara Lútersdóttir og Þórunn Arna Kristjánsdóttir en sú síðarnefnda mun leikstýra verkinu. Bragi Valdimar Skúlason semur tónlistina en tónlistarstjórn er í höndum Karls Olgeirssonar.
Þarf heilmikið hugrekki til að mæta í prufu
„Til þess að við getum sagt söguna um Fíusól þurfum við stóran og kraftmikinn hóp og vona ég að öll börn sem hafa áhuga sæki um," segir Þórunn Arna og heldur áfram. „Við viljum að prufurnar séu skemmtileg upplifun. Þar á leikgleðin að vera allsráðandi og við reynum að búa til andrúmsloft þar sem hvert og eitt barn getur blómstrað.

Það þarf heilmikið hugrekki til að mæta í svona prufu en ég er þakklát öllum þeim börnum sem mæta því án þeirra væri ekki hægt að setja upp þessa sýningu. Í leikritinu er fullt af fjölbreyttum og skemmtilegum hlutverkum og ég er spennt að hitta krakkana því þau sem verða valin verða mitt nánasta samstarfsfólk næsta vetur.“
Skráning í prufur er til og með 27. apríl á www.borgarleikhus.is/prufur.
Áætluð frumsýning á Fíasól gefst aldrei upp er í lok nóvember.