Handbolti

Birna Berg handarbrotin: „Vona ég finni einhverja töfralausn á Google til að laga þetta“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Birna Berg Haraldsdóttir heldur í vonina að tímabilinu sé ekki lokið hjá sér.
Birna Berg Haraldsdóttir heldur í vonina að tímabilinu sé ekki lokið hjá sér. vísir/hulda margrét

Birna Berg Haraldsdóttir, leikmaður ÍBV, er handarbrotin. Þrátt fyrir það vonast hún til að geta tekið þátt í úrslitum Olís-deildar kvenna, komist Eyjakonur þangað.

Birna meiddist í öðrum leik ÍBV og Hauka í undanúrslitum Olís-deildarinnar 1. maí. Haukar unnu leikinn, 25-24, eftir framlengingu.

„Þetta gerðist í leiknum á mánudaginn, undir lok leiks eða í framlengingunni. Á þriðjudaginn var ég alveg að drepast og lét kíkja á þetta,“ sagði Birna í samtali við Vísi.

Þrátt fyrir að vera í gifsi og eiga að vera frá í nokkrar vikur heldur Birna í vonina um að tímabilinu sé ekki lokið hjá sér og hún geti spilað í úrslitaeinvíginu, ef ÍBV kemst þangað.

„Það er talað um fjórar vikur í gifsi en ég er að vona ég finni einhverja töfralausn á Google til að laga þetta. Ef ég færi eftir læknisráði væri ég búin að afskrifa tímabilið en þetta er hægri höndin þannig ég held í smá von,“ sagði hin örvhenta Birna sem skoraði 87 mörk í 21 leik í Olís-deildinni og í fyrstu tveimur leikjum ÍBV í úrslitakeppninni gerði hún fjórtán mörk.

Birna fylgdist með þriðja leiknum gegn Haukum á miðvikudaginn úr stúkunni. ÍBV vann leikinn, 20-19, og er 2-1 yfir í einvíginu. Birna segir erfitt að hafa þurft að horfa á leikinn utan frá.

„Það var hræðilega stressandi og ömurlegt. Mig langaði bara að vera með en ég er ánægð með að við kláruðum þetta. Það er alltaf miklu meira stressandi að horfa á leiki,“ sagði Birna en Ásta Björt Júlíusdóttir fyllti skarð hennar í stöðu hægri skyttu í leiknum gegn Haukum í fyrradag og skoraði fjögur mörk.

Birna er bjartsýn fyrir hönd Eyjakvenna að þær vinni fjórða leikinn gegn Haukum á morgun og tryggi sér þar með sæti í úrslitum Olís-deildarinnar. En hún segir ÍBV geta spilað mun betur, aðallega í sókninni.

„Já, en það er samt hellingur sem við getum bætt. Við skoruðum bara tuttugu mörk en við stóðum þétta og góða vörn og Marta [Wawrzynkowska] var geggjuð í markinu og bjargaði okkur í lokin. Ef við bætum sóknarleiknum við vona ég að við vinnum,“ sagði Birna.

Leikur Hauka og ÍBV hefst klukkan 15:00 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×