Fótbolti

Kristall Máni ónotaður varamaður í tapi Rosenborg

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristall Máni kom ekkert við sögu hjá Rosenborg í dag.
Kristall Máni kom ekkert við sögu hjá Rosenborg í dag. Vísir/Hulda Margrét

Ísak Snær Þorvaldsson var í byrjunarliði Rosenborg sem beið lægri hlut á heimavelli gegn Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Kristall Máni Ingason sat allan tímann á bekk Rosenborg.

Kristall Máni var í fréttunum í vikunni eftir að hafa fengið gult spjald fyrir leikaraskap í síðasta deildarleik Rosenborg. Hann fékk síðan skammir frá þjálfara og yfirmanni íþróttamála félagsins og í dag var hann ónotaður varamaður í leik gegn Vålerenga.

Ísak Snær Þorvaldsson kom hins vegar inn í byrjunarliðið og byrjaði í framlínu Rosenborg. Gestirnir í Vålerenga tóku forystuna á 44. mínútu leiksins í dag þegar Mohamed Ofkir skoraði en Morten Bjorlo jafnaði strax í upphafi síðari hálfleiks.

Vålerenga komst strax aftur í forystu þegar Seedy Jatta skoraði annað mark liðsins tveimur mínútum eftir mark Bjorlo og Henrik Bjordal innsiglaði sigur Vålerenga með marki úr vítaspyrnu á 71. mínútu.

Ísak Snær lék allan leikinn fyrir Rosenborg og náði sér í gult spjald tveimur mínútum fyrir leikslok. Rosenborg er í 10. sæti deildarinnar með aðeins sex stig í sex leikjum en Vålerenga er sæti ofar með jafnmörg stig en hafa leikið einum leik minna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×