Saman fagna þau ástinni í brúðkaupsferð sem upphaflega átti að vera í Grikklandi en endaði í Mallorca.
Linda hefur verið dugleg að deila myndum á samfélagsmiðlum þar sem hún sýnir frá sólríkum ströndum og framandi umhverfi en hún segir ferðina draumi líkasta. „Við ætluðum fyrst til Grikklands og vorum búin að skipurleggja ferð þangað í allan vetur. Þremur dögum fyrir brottför sáum við svo að það var spáð endalausri rigningu sem okkur fannst ekki hljóma vel. Við fundum út að við gátum breytt fluginu til Grikklands og líka afbókað hótelið þar. Þess vegna tókum við þá skyndiákvörðun að fljúga frekar til Mallorca því veðurspáin þar var æðisleg."
Linda segir þau hjónin alls ekki sjá eftir ákvörðuninni og séu búin að njóta vel á æðislegum stöðum víðs vegar að um eyjuna. „Við erum að upplifa þvílík ævintýri á þessari gullfallegu eyju," segir hún og heldur áfram. „Þetta er búið að vera algjör draumur. Við byrjuðum á að vera í Palma og upplifa borgina, gamli bærinn þar er ótrúlega heillandi. Í dag erum við í strandbæ þaðan sem við fórum í siglingu um strandlengjuna. Næst er ferðinni svo heitið innar í landið þar sem við stefnum á að sjá hvað sveitin hefur upp á að bjóða. Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og óvænt ævintýri sem við munum lifa á að eilífu."
Linda stórglæsileg í Palma De Mallorca.
Hjónin nutu sín á snekkju í Santa Ponca á Mallorca.