Handbolti

Haukar fá sigursælan Stefán til starfa með Díönu

Sindri Sverrisson skrifar
Stefán Arnason og Díana Guðjónsdóttir munu sjá um að stýra Haukum á næsta tímabili, ef að líkum lætur.
Stefán Arnason og Díana Guðjónsdóttir munu sjá um að stýra Haukum á næsta tímabili, ef að líkum lætur. SAMSETT/HULDA MARGRÉT

Stefán Arnarson, sigursælasti þjálfari úrvalsdeildar kvenna í handbolta á þessari öld, verður að öllum líkindum tilkynntur sem nýr þjálfari kvennaliðs Hauka á næstunni. Hann mun væntanlega stýra liðinu með Díönu Guðjónsdóttur, sem verið hefur aðalþjálfari síðustu tvo mánuði með farsælum hætti.

Heimildir Vísis herma að verið sé að ganga frá síðustu lausu endum varðandi það að Stefán og Díana stýri Haukaliðinu saman.

Stefán sagði skilið við Fram eftir tímabilið en hann hafði stýrt Framkonum í níu ár og unnið með þeim þrjá Íslandsmeistaratitla, tvo deildarmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla. Hann kom til Fram eftir að hafa stýrt Val í sex ár, og unnið fjóra Íslandsmeistaratitla, fjóra deildarmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla.

Stefán og Díana mættust með lið sín í 6-liða úrslitum Olís-deildarinnar í vor, eftir að Fram hafði hafnað í 4. sæti deildarinnar og Haukar í 5. sæti, og unnu Haukakonur einvígið 2-0. Þær veittu svo deildar- og bikarmeisturum ÍBV svo sannarlega mikla keppni í undanúrslitum en töpuðu æsispennandi einvígi liðanna að lokum, 3-2.

Díana tók við sem aðalþjálfari Hauka þegar Ragnar Hermannsson óskaði eftir því að hætta í byrjun mars. Samningur hennar rann út í lok leiktíðar.

Díana verið með í ráðum

Samkvæmt upplýsingum Vísis hefur Díana þó verið með í ráðum varðandi framtíðarþjálfaramál Hauka, eftir ákvörðun Ragnars í vetur. Hún hefur verið yfirþjálfari hjá Haukum síðustu fjögur ár, með góðum árangri, en mun hafa ákveðið að hætta því starfi núna.

Ungt og efnilegt lið Hauka sprakk út á leiktíðinni í vetur, sérstaklega í úrslitakeppninni nú í vor, og auk þess að komast í oddaleik gegn ÍBV í undanúrslitum Olís-deildarinnar fór liðið einnig í Laugardalshöll í undanúrslit Powerade-bikarsins. Haukar eru því eflaust stórhuga varðandi næstu ár og fyrirhuguð ráðning á Stefáni bendir til þess að markmiðið sé skýrt um að berjast um titla, mögulega strax á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×