Patrik varð landsþekktur í mars með smellinum Prettyboitjokko og hafði þá verið lofaður í hálft ár.
„Hún var með mér áður en þetta allt byrjaði og ég sagði henni að ég ætlaði að vera poppstjarna Íslands,“ segir Patrik og heldur áfram:
„Hún viðurkennir stundum að þurfa aðeins að kyngja þessum breytingum. En hún og fjölskyldan hennar eru fegin að hafa fengið að kynnast mér áður en þetta byrjaði allt.“
Að sögn Patriks hefur líf hans umturnast með tilheyrandi athygli og annasömum dögum.
„Það er mjög gaman, bara geggjað,“ segir Patrik um það hvernig poppstjörnulífið fari í hann.
Patrik hefur bersýnilega í nógu að snúast þessa dagana og skrifaði nýverið undir nýjan umboðsmannssamning við athafnakonuna Birgittu Líf Björnsdóttur eins og fjallað var um í Veislunni með Gústa B á dögunum.
Patrik gaf út sína fyrstu smáskífu á dögunum undir nafninu Prettyboitjokko eftir samnefndum smelli.
Platan inniheldur fimm lög en útsetningarstjórinn og lagahöfundurinn Ingimar Birnir Tryggvason er maðurinn á bakvið tónlistarmanninn.