Tómas Karl var fyrst spurður að því hvort hann vissi hvað væri í gangi í Reykjavík þessa stundina. „Ég held það. Er það ekki út af því að það eru nokkrir forsetar að fara að koma að tala um Úkraínu og þess konar stöff?“ segir hann og kallar á félaga sinn, Úlf Bjarna, til að koma og svara líka spurningum fréttamanns.
„Það er svona Evrópufundur hjá öllum leiðtogum í Evrópu,“ segir Úlfur Bjarni við sömu spurningu. „Það er verið að ræða ýmis mál í núverandi samfélagi um Úkraínu, mannréttindi og alls konar svona sem þarf að ræða um.“
Vitiði hvað þessi fundur heitir?
„Evrópuráðsfundur Sameinuðu þjóðanana í ESB eða eitthvað - ég veit það ekki,“ segir Úlfur Bjarni. „Bara Evrópufundurinn.“
Aðspurðir um það hvað þeim finnst um það að lögreglan hér sé með byssur í tilefni fundarins sögðu strákarnir að þeir væru sáttir við það. „Ég held að það verði ekkert vandamál fyrir mig, ég er ekki að plana neitt,“ segir Tómas Karl.
„Mér finnst það bara þannig séð allt í lagi, ef það þarf þess þá er það bara þannig,“ segir Úlfur Bjarni í kjölfarið. „Ef það er hryðjuverkamaður þá myndi það sökka ef lögreglan hefði ekki byssur,“ segir Tómas Karl svo að lokum.