Fyrir fram var búist við nokkuð öruggum sigri en FH hefur varið ágætlega vel af stað í Bestu deildinni á meðan Njarðvík er nýliði í Lengjudeildinni. Leikurinn fór fram í Kaplakrika en FH hafði ekki enn leikið á honum í sumar.
Það tók heimamenn hálftíma að brjóta ísinn. Haraldur Einar Ásgrímsson tók þá hornspyrnu sem rataði á höfuðið á Jóhanni Ægi Arnarssyni. Stangaði hann boltann af öllu afli í netið og Robert Blakala kom engum vörnum við í marki gestanna.
Jóhann Ægir Arnarsson kom FH yfir með frábærum skalla! Kollspyrna framhjá Robert Blakala! pic.twitter.com/L6i2sLa6UT
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) May 17, 2023
Oumar Diouck fékk fínt færi til að jafna metin ekki löng síðar en Sindri Kristinn Ólafsson varði vel í marki FH.
Oumar Diouck í dauðafæri en Sindri Kristinn ver vel! Njarðvíkingar hafa alls ekki lagt árar í bát pic.twitter.com/NqEnHhv6uN
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) May 17, 2023
Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik og staðan 1-0 er liðin gengu til búningsherbergja. Í upphafi síðari hálfleiks tvöfaldaði Steven Lennon forystu FH.
Kjartan Kári Halldórsson átti fyrirgjöf sem Davíð Snær Jóhannsson skallaði að marki. Blakala varði meistaralega en boltinn féll fyrir Lennon sem skóflaði honum yfir línuna.
Steven Lennon kemur FH í 2-0! Þetta er 25. markið sem skotinn skorar í bikarkeppninni pic.twitter.com/HK7RLhpVOY
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) May 17, 2023
Á 58. mínútu minnkaði Marc McAusland muninn fyrir Njarðvík eftir hornspyrnu Diouck. Staðan orðin 2-1 og fór um heimamenn.
Mark frá Marc McAusland! Njarðvík minnkar muninn í 2-1 pic.twitter.com/zlDep9g9r3
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) May 17, 2023
Mörkin urðu þó ekki fleiri og FH er komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.